2.4.2015 | 23:34
Rokkmessa - Ný vonarstjarna breytinga innan kirkjunnar til að ná til yngri kynslóða
Sl. sunnudagskvöld óx von mín á eflingu trúarinnar og útbreiðslu hennar á landinu okkar. Ég mætti í rokkmessu Ástjarnarkirkju sem haldin var í Víðistaðakirkju. Ég er mjög íhaldssöm í trúnni hef mætt á samkomur og lækkað meðalaldurinn þar í mörg ár. En ég hef haft áhyggjur af þróuninni innan kirkjunnar og trúarsamfélagsins míns. Ég tel að gamla formið á messunni nái ekki til yngri kynslóðarinnar. Er reyndar ekki ein um það. Faðir minn Björn G. Jónsson bóndi sem var sóknarnefndarformaður Húsavíkurkirkju í mörg ár lýsti áhyggjum sínum á þessu á prenti fyrir u.þ.b. 18 árum. Læt hann hafa orðið þegar hann tók að sér að vera meðhjálpari með prest nýkominn eftir sérmenntun einn sunnudag: .. ...ég bjóst við mörgum í kirkju og bjó mig í mín bestu spariföt og ætlaði að taka á móti langþráðum sóknarbörnum en þau létu á sér standa... um síðir komu tvær konur. Ég hljóp til og hjálpaði þeim. Þær ætluðu varla að komast upp tröppurnar sakir hrörleika. Kirkjugestirnir urðu ekki fleiri. Þetta var og er alvarleg staða víða hjá kirkjunni. Von kviknaði í brjósti mínu um síðustu helgi. Fjölskyldan mín mætti öll í Víðistaðakirkju í rokkmessu Ástjarnarkirkju. Það hafði ekki gerst lengi. Fólk hópaðist í kirkju og vantaði á endanum stóla til að mæta þörfinni. Ungir og aldnir saman. Við nutum kvöldsins öll, hlustuðum á yndislegan texta, með sterkum trúarboðskap. Falleg lög frægra hljómsveita voru notuð til að koma þessum textum til okkar. Unga fólkið hlustaði. Þakklæti altók huga minn. Þakklæti fyrir að eiga svo frábæra presta og hljómlistarmenn sem taka svona verkefni alvarlega og koma vönduðum tónlistaratriðum með sterkum trúarboðskap út til yngri kynslóðarinnar og auðvitað okkar allra.
Guð blessi starf ykkar áfram með kæru þakklæti fyrir mig og fjölskyldu mína.
Um bloggið
Sveinbjörg Björnsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta er ekkert nýtt, því að þegar ég var unglingur, þá tók sr. Árelíus Níelsson, þáverandi sóknarprestur í Langholtssókn, upp á þessu og hélt poppmessur í kirkju sinni, og ef ég man rétt, þá orti hann jafnvel nokkra "poppsálma", sem hann lét búa til lög við, til að ná til unga fólksins, minnar kynslóðar. Þetta var á sjöunda áratug síðustu aldar. Það voru margir hneykslaðir á þessu og fannst þetta óþarfi, en honum fannst eitthvað þurfa að gera til að ná til ungu kynslóðarinnar. Ég fór nú ekki í þessar poppmessur, enda hef ég alltaf verið nokkuð íhaldssöm á kirkjutónlist, en margir "poppsálmar" geta komið vel út og hljómað ágætlega, og eru sumir skemmtilegir. Hins vegar leggjum við guðfræðingar mesta áherslu á, að Orðið sé virkt og nái til fólks, ungra sem aldinna. Lúther lagði líka mesta áhersluna á það, en notaði sálma líka til að koma boðskapnum til skila. Að hafa svona messur er ekkert verra en hvað annað, enda má benda á það hér, að sálmar Lúthers voru ortir við þýsk alþýðulög, þeirra tíma slagara, sem hafa lifað fram á þennan dag. Ef boðskapurinn er réttur, þá er þetta ekkert verra en hvað annað til að ná til allra aldurshópa. Ég tek líka undir með þér varðandi það, að það er áhyggjuefni, hvað lítill áhugi er hjá yngri aldurshópum varðandi kristni, messuhald og kirkjusókn ekki síst. Vinnan skiptir suma meira máli en sáluheillin, stundum svo miklu meira, að prestar þurfa alltaf að minna fólk á að slökkva á farsímunum, áður en messan hefst, svo að verði ekki ónæði af þeim. Svona er þetta hjá sumum, því miður.
Guðbjörg Snót Jónsdóttir (IP-tala skráð) 3.4.2015 kl. 10:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.